Category Archives: Tilkynningar

Styrkur til Landsbjargar afhentur

Þann 26.september sl afhenti Ástusjóður styrk til Slysavarnafélagsins Landsbjargar til að auka öryggi björgunarsveitarfólks að störfum. Styrkt voru kaup á björgunarvestum fyrir áhafnir björgunarskipa félagsins. Félagið er í átaki við að fjármagna nauðsynlegan öryggisbúnað fyrir sitt fólk. Björgunarvestin eru með staðsetningarbúnaði (AIS) sem eykur til muna öryggi áhafnanna.

Kristján Þór Harðarson frkvstj SL, Inga Þórsdóttir, Helga Hauksdóttir og Margrét Jóelsdóttir fulltrúar Ástusjóðs og Guðbrandur Örn Arnarson umsjón aðgerðarmála SL

Björgunarsveitin Víkverji styrkt

Þann 29. ágúst 2024 afhenti Ástusjóður björgunarsveitinni Víkverja þrjár milljónir króna til kaupa á dokku og dróna. Dokkan gerir fjarstýringu dróna mögulega og þannig getur búnaðurinn staðsettur við Vík í Mýrdal nýst strax eftir útkall til að staðsetja fólk í hættu, til dæmis í Reynisfjöru.

Ástusjóður var stofnaður fyrir tíu árum til minningar um Ástu Stefánsdóttur sem lést af slysförum árið 2014. Styrkir sjóðsins hafa oftar en ekki verið til kaupa á drónum fyrir björgunarsveitir. Á stofnári sjóðsins voru drónar mikil nýjung við leit og björgun og hafa síðan sannað gildi sitt í vinnu björgunarsveitanna.

Fulltrúar Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Ástusjóðs
Styrkur afhentur Víkverja

(30.08.2024)