Drónarnir afhentir

Ástusjóður hefur nú afhent björgunarsveitinni Dagrenningu á  Hvolsvelli og Flugbjörgunarsveitinni á Hellu hvorri um sig tvo dróna búna myndavélum og hitamyndavélum. Drónar geta nýst vel við yfirborðsleit á stóru svæði á stuttum tíma og við erfiðar aðstæður eins og í bröttum fjallshlíðum, á jöklum, í skerjum og gljúfrum og við fljót og ár. Hitamyndavélarnar gera kleift að greina manneskju, sem gefur frá sér hita, frá umhverfinu og geta því nýst við leit í myrkri. Samhliða getur notkun dróna minnkað áhættu við leit á hættulegum stöðum. Þetta eru fyrstu drónarnir sem björgunarsveitir á Íslandi fá til afnota. Við afhendingu drónanna á Hvolsvelli þann 29. desember kvaðst formaður björgunarsveitarinnar vonast til að sveitirnar tvær gætu miðlað þeirri þekkingu sem þær öðlast á þessum tækjum til annarra björgunarsveita. Vonar Ástusjóður að gjöfin muni stuðla að áframhaldandi þróun í leitartækni en það er áhersluatriði hjá sjóðnum að styrkja björgunarsveitirnar með nýrri tækni sem gerir leit að fólki við erfiðar aðstæður líklegri til árangurs.

Umfjöllun á Vísi um gjöfina.

(uppfært 30.12.2014)