Þriðjudaginn 10. júní 2014 komu sambýliskonurnar Ásta og Pino ekki til baka í bæinn eftir helgarferð í sumarbústað í Fljótshlíð. Þær svöruðu ekki farsímum og þegar ættingjar huguðu að þeim í sumarbústaðnum voru þær hvergi sjáanlegar. Þá var kallað eftir aðstoð lögreglu og björgunarsveita við að leita þeirra.
Rannsóknir lögreglu sýna að Ásta og Pino fóru í göngutúr að Bleiksárgljúfri eftir klukkan hálf tíu að morgni hvítasunnudags 8. júní en þann dag var einstaklega gott veður. Strax að kvöldi fyrsta leitardagsins, 10. júní, fannst lík Pino í gljúfrinu. Réttarkrufning sýndi að Pino lést eftir hátt fall, líklegast niður 30 metra háan foss ofarlega í gljúfrinu. Hún hefur síðan borist áfram niður eftir gljúfrinu að hyl þar sem hún fannst. Fimm vikum síðar fundu björgunarsveitarmenn lík Ástu í ánni nærri munna Bleiksárgljúfurs. Krufning leiddi í ljós að engar líkur voru á að Ásta hefði fallið líkt og Pino heldur hefði hún látist af drukknun eftir að hafa misst meðvitund vegna ofkælingar. Engin vitni eru að því sem gerðist þennan sunnudagsmorgunn en allt bendir til þess að eftir að Pino féll í glúfrið hafi Ásta farið að leita hennar. Hægt er að komast inn í gljúfrið á nokkrum stöðum og ekki ljóst hvern þeirra Ásta hefur valið. Föt af Ástu og Pino sem fundust við Bleiksánna benda einnig til að Ásta hafi farið út í ánna mun neðar en vinkona hennar og líklega í flýti nálægt hylnum þar sem lík Pino síðar fannst. Ásta gæti hafa farið þar niður í gljúfrið og ætlað sér að ná Pino úr hylnum. Þessa atburðarás þekkjum við ekki nákvæmlega en ljóst er að Ásta lagði lífið að veði til þess að bjarga Pino vinkonu sinni.