Ástusjóður

Ástusjóður var stofnaður 25. júlí 2014 til minningar um Ástu Stefánsdóttur lögfræðing sem lést af slysförum sumarið 2014 í Bleiksárgljúfri í Fljótshlíð. Sjóðurinn styrkir Landsbjörgu og björgunarsveitirnar um hinar dreifðu byggðir landsins og vinnur að hugðarefnum Ástu sem innan lögfræðinnar voru einkum umhverfisréttur, refsiréttur, réttarfar og mannréttindalöggjöf. Hún hafði jafnframt brennandi áhuga á jafnréttis- og menningarmálum. Vinir hennar vilja með sjóðnum minnast Ástu og láta í ljós ævarandi þakklæti sitt og fjölskyldu hennar vegna starfa björgunarsveita og lögreglu eftir slysið við leitina að Ástu.

Þeim sem vilja leggja sjóðnum lið er bent á að reikningsnúmer hans er 301-13-302339 og kennitalan er 630714-0440.

Um sjóðinn.

Ástusjóður styrkti björgunarsveitina Dagrenningu á Hvolsvelli og Flugbjörgunasveitina á Hellu árið 2014 með fjórum drónum búnum myndavélum og hitamyndavélum en það voru fyrstu drónar sem björgunarsveitir á Íslandi fengu til afnota, með viðbótarbúnaði og tveimur drónum af nýrri gerð árið 2015, tveimur drónum með myndavélum og nýrri gerð stýribúnaðar árið 2016 og með nýrri gerð dróna árið 2019.

Sjóðurinn styrkti árið 2018 vinnu við verkið Umhverfis- og auðlindaréttur – heildarrit.

Í desember 2020 styrkti sjóðurinn björgunarsveitina Ísólf á Seyðisfirði með fjárframlagi.

Og þann 29. ágúst 2024 afhenti Ástusjóður björgunarsveitinni Víkverja í Vík í Mýrdal fjárframlag til kaupa á dokku og dróna. Dokkan gerir fjarstýringu dróna mögulega og þannig getur búnaðurinn nýst strax eftir útkall við að staðsetja fólk í hættu. Sjá nánar í frétt hér á síðunni.