Ásta Stefánsdóttir fæddist í Reykjavík 20. nóvember 1978. Þegar Ásta var að verða tveggja ára fluttist fjölskyldan til Gautaborgar þar sem foreldrar hennar, Inga Þórsdóttir og Stefán Einarsson stunduðu nám. Fjölskyldan flutti til Íslands þegar Ásta var 11 ára og bræðurnir Þór og Kolbeinn bættust í hópinn þegar Ásta var unglingur.
Ásta varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð í desember 1997. Hún nam lögfræði við Háskóla Íslands og McGill háskólann í Montreal í Kanada. Hún lauk einnig námskeiðum í sagnfræði, sænskum þýðingum og bókmenntum við Háskóla Íslands. Að loknu embættisprófi árið 2004 varð hún aðstoðarmaður dómara við Héraðsdóm Suðurlands til 2006 og við Héraðsdóm Reykjavíkur til 2011. Þá starfaði hún til skemmri tíma árið 2006 sem fulltrúi á lögfræði- og ákærusviði Lögreglustjórans í Reykjavík og í afleysingum árið 2012 á skrifstofu réttarfars og stjórnsýslu í innanríkisráðuneytinu. Ásta var skrifstofustjóri hjá Norræna sakfræðiráðinu (Norrænu samstarfsnefndinni um afbrotafræði) 2011-2012. Meðfram föstum störfum sinnti hún stundakennslu í refsirétti o.fl. við Lagadeild Háskóla Íslands um nokkurra ára skeið frá 2008. Ásta var lögfræðingur hjá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frá ársbyrjun 2013, og var þar fastráðin þegar hún lést.
Ásta sinnti ýmiss konar félagsstörfum, t.d. í málflutningskeppnum laganema og í Félagi löglærðra aðstoðarmanna dómara þar sem hún var formaður árin 2008-2011. Hún var mikil fjölskyldukona og iðin við að rækta sambönd við stóran vinahóp sinn, hérlendis og erlendis. Hún naut lista í ríkum mæli og bestu vinir hennar vissu að hún var sjálf ágætis píanóleikari. Allt frá barnæsku hafði hún ánægju af því að fást við myndlist og sótti á fullorðinsárum námskeið í þeirri grein. Gönguferðir og hollt líferni voru henni eðlislæg. Sumarið 2013 tókust kynni með henni og Pino Beccera Bolanos íþróttafræðingi frá Kanaríeyjum, f. 22. mars 1972. Ásta og Pino áttu sameiginlega ástríðu fyrir útivist og voru við Bleiksárgljúfur í Fljótshlíð á hvítasunnudag 2014 þegar slys bar að sem hvorug þeirra lifði af.