Author Archives: astuadmin

Jólakort Ástusjóðs 2018 fást í Bóksölu stúdenta

Ný Jólakort Ástusjóðs (2018) eru komin úr prentun. Þau eru seld í Bóksölu Stúdenta á Háskólatorgi. Verð á 10 pakka korta með umslögum er 1.990 kr.

Einnig er hægt að panta kort með því að senda tölvupóst á kort@astusjodur.is og taka fram hvert á að senda kortapakkann. Verð pakka með 10 kortum og umslögum er 2.300 krónur og er þá sendingarkostnaður innifalinn. Framlag fyrir pöntuð kort óskast millifært á sjóðinn, reikningsnúmer hans er 301-13-302339 og kennitalan er 630714-0440, blað með þessum upplýsingum mun fylgja kortasendingunni.

(11.12.2018)

Myndirnar á jólakortunum:

Jólakort

Jólakort

Jólakort

Styrkveiting úr Ástusjóði

Ástusjóður afhenti styrk þann 5.janúar sl. til vinnu við verkið “Umhverfis- og auðlindaréttur – heildarrit”. Styrkurinn mun gera Aðalheiði Jóhannsdóttur prófessor við Lagadeild HÍ kleift að ráða nemanda í lögfræði sér til aðstoðar við útgáfu þessa mikilvæga rits og jafnframt veita nemanda möguleika til að kynnast málefninu og vinnu að fræðastörfum.

Þetta er í fyrsta sinn sem Ástusjóður veitir styrk til verkefna sem tilheyra hugðarefnum Ástu, styrkir sjóðsins fram að þessu hafa alfarið runnið til björgunarsveita til drónavæðingar þeirra. En tilgangur sjóðsins er einmitt að vinna að hugðarefnum Ástu auk þess að styrkja Landsbjörgu og björgunarsveitirnar um hinar dreifðu byggðir landsins. Þessi hugðarefni voru einkum umhverfisréttur, refsiréttur, réttarfar og mannréttindalöggjöf. Ásta hafði jafnframt brennandi áhuga á jafnréttis- og menningarmálum.

(19.01.2018)

©Kristinn Ingvarsson

 

 

 

Jólakveðja frá Ástusjóði

Ástusjóður þakkar öllum sem studdu sjóðinn á árinu með kaupum á jólakortum, minningarkortum og tækifæriskortum, þeim sem hlupu í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir sjóðinn og þeim sem hétu á hlauparana. Síðast en ekki síst er þeim þakkað sem styrktu sjóðinn með beinum framlögum. Innilegar þakkir öll. Framlögin gera sjóðnum kleift að vinna áfram að stefnumálum sjóðsins sem lesa má um hér á síðunni.

Gleðileg jól.

(24.12.2017)

Hægt að heita á hlaupara og styrkja Ástusjóð

ÞESSI FRÉTT ER FRÁ 2017. FRÉTT TENGD SAMA MÁLI FYRIR ÁRIÐ 2018 ER HÉR

Skráningar og áheit vegna Reykjavíkurmaraþons 2017 standa nú yfir. Hlauparar sem skrá sig geta valið góðgerðarmál sem þeirra stuðningsaðilar síðan styrkja með áheitum á hlauparana gegnum síðuna hlaupastyrkur punktur is.

Hér er hlekkur á hlaupastyrkssíðuna með lista yfir hlaupara sem hlaupa fyrir Ástusjóð. Til að heita á hlaupara þarf að smella á viðkomandi og fylla út formið sem kemur upp.

Kærar þakkir og koma svo!

(11.07.2017)

(Uppfært 06.06.2018)

Drónar – bylting í leit og björgun

Stórfróðleg umfjöllun um notkun dróna við leit og björgun var í Kastljósi RÚV þann 6. mars sl.

Gefið ykkur tíma til að horfa og hlusta, þetta er tæplega 9 mínútna innslag, umfjöllunin byrjar á tímanum 00:50 og endar í 09:38 í þættinum.

Ástusjóður afhenti í desember 2014 fyrstu drónana sem björgunarsveitir á Íslandi fengu til afnota. Hefur sjóðurinn síðan í góðu samráði við björgunarsveitirnar unnið að því að bæta drónabúnaðinn með nýjum drónum og nýjum búnaði sem bæta virkni þeirra. Frá upphafi hefur það verið áhersluatriði hjá sjóðnum að styrkja björgunarsveitirnar með nýrri tækni sem gerir leit að fólki við erfiðar aðstæður líklegri til árangurs.

(10.03.2017)

Ástusjóður afhendir nýja dróna

Ástusjóður afhenti 29. desember 2016 björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli og Flugbjörgunarsveitinni á Hellu tvo nýja dróna að gjöf.

Nýju drónarnir, Phantom-4, eru búnir bæði hefðbundnum myndavélum og hitamyndavélum. Þeir gefa björgunarsveitunum alveg nýja möguleika á leit úr lofti. Hægt verður að skoða leitarsvæðið samtímis með myndavél og hitamyndavél. Myndavélunum er hægt að snúa í allar áttir með stýringu frá jörðu og eru tveir skjáir notaðir til þess að fylgjast með því sem fyrir augu ber.

Stýribúnaður hitamyndavélanna eru nýjung sem þróuð hefur verið í Hollandi. Búnaðinn má á auðveldan hátt flytja milli dróna og einnig er hægt að koma honum fyrir á annan hátt, t.d. á enda stangar, og nýta þannig til leitar á óaðgengilegum stöðum á jörðu niðri.

Mikil þróun hefur átt sér stað í þessari tækni frá því að Ástusjóður afhenti björgunarsveitunum fyrstu drónana í lok árs 2014.  Sjóðurinn hefur nú fært sveitunum átta dróna og endurspegla þeir þá þróun sem orðið hefur. Markmiðið er að auka möguleika á árangri í leit að týndu fólki og draga jafnframt úr líkum á því að björgunarfólk lendi í hættu á erfiðum leitarsvæðum.

Það er afar ánægjulegt að Ástusjóður geti styrkt þetta verkefni björgunarsveitanna. Það er þeim að þakka sem styrkt hafa sjóðinn með ýmsum hætti; beinum fjárframlögum, sjálfboðavinnu, þátttöku í styrktartónleikum, maraþonhlaupi og kaupum á minningar- og jólakortum.

(29.12.2016)