Styrkveiting úr Ástusjóði

Ástusjóður afhenti styrk þann 5.janúar sl. til vinnu við verkið “Umhverfis- og auðlindaréttur – heildarrit”. Styrkurinn mun gera Aðalheiði Jóhannsdóttur prófessor við Lagadeild HÍ kleift að ráða nemanda í lögfræði sér til aðstoðar við útgáfu þessa mikilvæga rits og jafnframt veita nemanda möguleika til að kynnast málefninu og vinnu að fræðastörfum.

Þetta er í fyrsta sinn sem Ástusjóður veitir styrk til verkefna sem tilheyra hugðarefnum Ástu, styrkir sjóðsins fram að þessu hafa alfarið runnið til björgunarsveita til drónavæðingar þeirra. En tilgangur sjóðsins er einmitt að vinna að hugðarefnum Ástu auk þess að styrkja Landsbjörgu og björgunarsveitirnar um hinar dreifðu byggðir landsins. Þessi hugðarefni voru einkum umhverfisréttur, refsiréttur, réttarfar og mannréttindalöggjöf. Ásta hafði jafnframt brennandi áhuga á jafnréttis- og menningarmálum.

(19.01.2018)

©Kristinn Ingvarsson