Ástusjóður afhendir nýja dróna

Ástusjóður afhenti 29. desember 2016 björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli og Flugbjörgunarsveitinni á Hellu tvo nýja dróna að gjöf.

Nýju drónarnir, Phantom-4, eru búnir bæði hefðbundnum myndavélum og hitamyndavélum. Þeir gefa björgunarsveitunum alveg nýja möguleika á leit úr lofti. Hægt verður að skoða leitarsvæðið samtímis með myndavél og hitamyndavél. Myndavélunum er hægt að snúa í allar áttir með stýringu frá jörðu og eru tveir skjáir notaðir til þess að fylgjast með því sem fyrir augu ber.

Stýribúnaður hitamyndavélanna eru nýjung sem þróuð hefur verið í Hollandi. Búnaðinn má á auðveldan hátt flytja milli dróna og einnig er hægt að koma honum fyrir á annan hátt, t.d. á enda stangar, og nýta þannig til leitar á óaðgengilegum stöðum á jörðu niðri.

Mikil þróun hefur átt sér stað í þessari tækni frá því að Ástusjóður afhenti björgunarsveitunum fyrstu drónana í lok árs 2014.  Sjóðurinn hefur nú fært sveitunum átta dróna og endurspegla þeir þá þróun sem orðið hefur. Markmiðið er að auka möguleika á árangri í leit að týndu fólki og draga jafnframt úr líkum á því að björgunarfólk lendi í hættu á erfiðum leitarsvæðum.

Það er afar ánægjulegt að Ástusjóður geti styrkt þetta verkefni björgunarsveitanna. Það er þeim að þakka sem styrkt hafa sjóðinn með ýmsum hætti; beinum fjárframlögum, sjálfboðavinnu, þátttöku í styrktartónleikum, maraþonhlaupi og kaupum á minningar- og jólakortum.

(29.12.2016)