Author Archives: astuadmin

Styrkveiting úr Ástusjóði

Ástusjóður afhenti styrk þann 5.janúar sl. til vinnu við verkið “Umhverfis- og auðlindaréttur – heildarrit”. Styrkurinn mun gera Aðalheiði Jóhannsdóttur prófessor við Lagadeild HÍ kleift að ráða nemanda í lögfræði sér til aðstoðar við útgáfu þessa mikilvæga rits og jafnframt veita nemanda möguleika til að kynnast málefninu og vinnu að fræðastörfum.

Þetta er í fyrsta sinn sem Ástusjóður veitir styrk til verkefna sem tilheyra hugðarefnum Ástu, styrkir sjóðsins fram að þessu hafa alfarið runnið til björgunarsveita til drónavæðingar þeirra. En tilgangur sjóðsins er einmitt að vinna að hugðarefnum Ástu auk þess að styrkja Landsbjörgu og björgunarsveitirnar um hinar dreifðu byggðir landsins. Þessi hugðarefni voru einkum umhverfisréttur, refsiréttur, réttarfar og mannréttindalöggjöf. Ásta hafði jafnframt brennandi áhuga á jafnréttis- og menningarmálum.

(19.01.2018)

©Kristinn Ingvarsson

 

 

 

Jólakveðja frá Ástusjóði

Ástusjóður þakkar öllum sem studdu sjóðinn á árinu með kaupum á jólakortum, minningarkortum og tækifæriskortum, þeim sem hlupu í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir sjóðinn og þeim sem hétu á hlauparana. Síðast en ekki síst er þeim þakkað sem styrktu sjóðinn með beinum framlögum. Innilegar þakkir öll. Framlögin gera sjóðnum kleift að vinna áfram að stefnumálum sjóðsins sem lesa má um hér á síðunni.

Gleðileg jól.

(24.12.2017)

Drónar – bylting í leit og björgun

Stórfróðleg umfjöllun um notkun dróna við leit og björgun var í Kastljósi RÚV þann 6. mars sl.

Gefið ykkur tíma til að horfa og hlusta, þetta er tæplega 9 mínútna innslag, umfjöllunin byrjar á tímanum 00:50 og endar í 09:38 í þættinum.

Ástusjóður afhenti í desember 2014 fyrstu drónana sem björgunarsveitir á Íslandi fengu til afnota. Hefur sjóðurinn síðan í góðu samráði við björgunarsveitirnar unnið að því að bæta drónabúnaðinn með nýjum drónum og nýjum búnaði sem bæta virkni þeirra. Frá upphafi hefur það verið áhersluatriði hjá sjóðnum að styrkja björgunarsveitirnar með nýrri tækni sem gerir leit að fólki við erfiðar aðstæður líklegri til árangurs.

(10.03.2017)

Ástusjóður afhendir nýja dróna

Ástusjóður afhenti 29. desember 2016 björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli og Flugbjörgunarsveitinni á Hellu tvo nýja dróna að gjöf.

Nýju drónarnir, Phantom-4, eru búnir bæði hefðbundnum myndavélum og hitamyndavélum. Þeir gefa björgunarsveitunum alveg nýja möguleika á leit úr lofti. Hægt verður að skoða leitarsvæðið samtímis með myndavél og hitamyndavél. Myndavélunum er hægt að snúa í allar áttir með stýringu frá jörðu og eru tveir skjáir notaðir til þess að fylgjast með því sem fyrir augu ber.

Stýribúnaður hitamyndavélanna eru nýjung sem þróuð hefur verið í Hollandi. Búnaðinn má á auðveldan hátt flytja milli dróna og einnig er hægt að koma honum fyrir á annan hátt, t.d. á enda stangar, og nýta þannig til leitar á óaðgengilegum stöðum á jörðu niðri.

Mikil þróun hefur átt sér stað í þessari tækni frá því að Ástusjóður afhenti björgunarsveitunum fyrstu drónana í lok árs 2014.  Sjóðurinn hefur nú fært sveitunum átta dróna og endurspegla þeir þá þróun sem orðið hefur. Markmiðið er að auka möguleika á árangri í leit að týndu fólki og draga jafnframt úr líkum á því að björgunarfólk lendi í hættu á erfiðum leitarsvæðum.

Það er afar ánægjulegt að Ástusjóður geti styrkt þetta verkefni björgunarsveitanna. Það er þeim að þakka sem styrkt hafa sjóðinn með ýmsum hætti; beinum fjárframlögum, sjálfboðavinnu, þátttöku í styrktartónleikum, maraþonhlaupi og kaupum á minningar- og jólakortum.

(29.12.2016)

Takk fyrir tónleikana

Styrktartónleikar Ástusjóðs fóru fram fyrir nánast fullu húsi í Norðurljósasal Hörpu 10. nóvember sl. Samúel Jón Samúelsson Big band hóf tónleikana taktfastri tónlist, næstir stigu á svið úr hljómsveitinni Valdimar þeir Valdimar með sína flauelsrödd og Ásgeir sem lék listir sínar á gítarinn. Kraftmiklar konur úr Aurora og Vox feminae undir stjórn Margrétar Pálmadóttur og við píanóundirleik Svönu Víkingsdóttur fluttu síðan skemmtileg lög. Eftir hlé flutti kammerhópurinn Elektra Ensemble tónlist sem svo sannarlega gældi við hlustir tónleikagesta og lokaatriði tónleikanna var dásamlegur söngur Sigríðar Thorlacius við hljóðfæraleik þeirra Tómasar Einarssonar, Gunnars Gunnarsson og Kristófers Rodriguez Svönusonar. Listamönnunum öllum og öðrum sem gerðu þessa tónleika mögulega sem og öllum tónleikagestum eru færðar kærar þakkir fyrir góða kvöldstund.

(16.11.2015)

Tveir drónar afhentir 24. október 2015

Dronaafhending_24-10-2015Það var afar ánægjulegt að Ástusjóður gat afhent tvo nýja dróna á dögunum.

Drónar geta nýst vel við leit á stórum svæðum og við erfiðar aðstæður eins og í bröttum fjallshlíðum, á jöklum, í skerjum og gljúfrum og við ár og fljót. Hitamyndavélar gera kleift að greina manneskju (sem gefur frá sér hita) og geta nýst við leit í dagsbirtu og í myrkri. Notkun dróna getur minnkað áhættu við leit á hættulegum stöðum.

Ástusjóður hefur afhent björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli og Flugbjörgunasveitinni á Hellu:

  • Fjóra dróna búna myndavélum og hitamyndavélum í lok ársins 2014, en það voru fyrstu drónar sem björgunarsveitir á Íslandi fengu til afnota.
  • Viðbótarútbúnað nokkrum mánuðum síðar.
  • Tvo Phantom-3 dróna af fullkomnustu gerð þann 24. október 2015. Sjá einnig Facebook síðu Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu 24. október og 29. október 2015.

Á meðfylgjandi mynd má sjá fulltrúa úr drónaflokki Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu og Dagrenningar ásamt formönnum sveitana og fulltrúum Ástusjóðs.

(29.10.2015)

Styrktartónleikar Ástusjóðs 10. nóvember

Styrktartónleikar Ástusjóðs 2015 verða þriðjudaginn 10. nóvember kl.20 í Norðurljósasal Hörpu.

  • Aurora og Vox feminae ásamt Svönu Víkingsdóttur og Margréti Pálmadóttur,
  • Kammerhópurinn Elektra Ensemble,
  • Samuel Jón Samúelsson big band,
  • Tómas Einarsson  og Sigríður Thorlacius og
  • Valdimar og Ásgeir úr hljómsveitinni Valdimar

færa okkur frábæra tónlist.

Miðar eru seldir í miðasölu tónlistarhússins Hörpu og á miðasöluvef Hörpu

(uppfært 07.10.2015)