Author Archives: astuadmin

Drónarnir afhentir

Ástusjóður hefur nú afhent björgunarsveitinni Dagrenningu á  Hvolsvelli og Flugbjörgunarsveitinni á Hellu hvorri um sig tvo dróna búna myndavélum og hitamyndavélum. Drónar geta nýst vel við yfirborðsleit á stóru svæði á stuttum tíma og við erfiðar aðstæður eins og í bröttum fjallshlíðum, á jöklum, í skerjum og gljúfrum og við fljót og ár. Hitamyndavélarnar gera kleift að greina manneskju, sem gefur frá sér hita, frá umhverfinu og geta því nýst við leit í myrkri. Samhliða getur notkun dróna minnkað áhættu við leit á hættulegum stöðum. Þetta eru fyrstu drónarnir sem björgunarsveitir á Íslandi fá til afnota. Við afhendingu drónanna á Hvolsvelli þann 29. desember kvaðst formaður björgunarsveitarinnar vonast til að sveitirnar tvær gætu miðlað þeirri þekkingu sem þær öðlast á þessum tækjum til annarra björgunarsveita. Vonar Ástusjóður að gjöfin muni stuðla að áframhaldandi þróun í leitartækni en það er áhersluatriði hjá sjóðnum að styrkja björgunarsveitirnar með nýrri tækni sem gerir leit að fólki við erfiðar aðstæður líklegri til árangurs.

Umfjöllun á Vísi um gjöfina.

(uppfært 30.12.2014)

Nýjung – jólakort og tækifæriskort

Nú geturðu keypt pakka með jóla- og tækifæriskortum og styrkt Ástusjóð um leið. Fallegar ljósmyndir prýða kortin, sjá hér neðst. Kortin eru tvöföld, stærðin er A6, umslög fylgja. Um er að ræða fimm mismunandi kort. Tvær gerðir korta með vetrarmynd og jólakveðju inni í og þrjár gerðir tækifæriskorta án texta inni í.

Verð pakka með 10 kortum og umslögum er 1.800 krónur. Við bætist póstsendingarkostnaður til staða utan höfuðborgarsvæðisins.

Til að panta sendið tölvupóst á kort@astusjodur.is og takið fram hvort óskað er eftir jólakortum eða tækifæriskortum og hvert á að senda kortapakkann.

Greiðsla fyrir kortin óskast millifærð á sjóðinn, reikningsnúmer hans er 301-13-302339 og kennitalan er 630714-0440, blað með þessum upplýsingum mun fylgja kortasendingunni.

Kortin eru einnig seld í Kaffifélaginu, Skólavörðustíg 10 í Reykjavík.

Myndirnar á kortunum:

Jólakort

Jólakort

Jólakort

Jólakort

 

Tækifæriskort

Tækifæriskort

Tækifæriskort

Tækifæriskort

Tækifæriskort

Tækifæriskort

Styrktartónleikar 25. nóvember 2014

Frá tónleikunum

Frá tónleikunum

Styrktartónleikar Ástusjóðs voru haldnir í Austurbæ við Snorrabraut í Reykjavík þriðjudagskvöldið 25. nóvember 2014 kl. 20. Fram komu Svavar Knútur, Ragga Gröndal, hljómsveitin Árstíðir, Megas og Magga Stína og hljómsveitin Byzantine Silhouette (Skuggamyndir frá Býsans). Húsfyllir var á tónleikunum. Gerðu tónleikagestir góðan róm að frábærum flutningi listamannanna og klöppuðu og dönsuðu í lok tónleikanna undir eldfjörugri syrpu Byzantine Silhouette.

Umsjón með undirbúningi tónleikanna höfðu þær Edda Rún Ólafsdóttir og Margrét Jóelsdóttir. Kynnir kvöldsins var Ástbjörg Rut Jónsdóttir. Listamönnunum, tæknimönnum, sviðsmönnum og öllum sem lögðu hönd á plóginn við undirbúning og framkvæmd eru færðar bestu þakkir.

Meðal fyrirtækja sem styrktu tónleikana eru: Hótel Hvolsvöllur, Stracta Hótel, Hótel Rangá, Hellishólar, Prentlausnir, Kaffifélagið, Reykjavík Roasters, Gleraugnaverslunin Sjáðu, 12 tónar, Sólon, Gray Line og Kökugerð HP. Allur ágóði tónleikanna rennur óskiptur í Ástusjóð sem á næstunni afhendir björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli og Flugbjörgunarsveitinni á Hellu hvorri um sig tvo dróna (flygildi) sem vonast er til að auðveldi og opni nýja möguleika  við leit að fólki við erfiðar aðstæður.

tonleikar_25nov2014

 

 

 

 

 

 

(uppfært 25.11.2014)

Drónar fyrir björgunarsveitir

Drónar eða flygildi sem flogið er mannlausum hafa verið pantaðir fyrir björgunarsveitirnar Dagrenningu á Hvolsvelli og Flugbjörgunarsveitina á Hellu og munu koma til landsins á næstu vikum.  Flygildin voru valin í samráði við björgunarsveitirnar. Hér er um framtíðartækni að ræða sem opnar björgunarsveitunum nýja möguleika með leit að fólki úr lofti. Flygildi munu geta reynst ómetanleg hjálpartæki við leitir við erfiðar aðstæður, en þekking og tækni til leitar við slíkar aðstæður eru áherslumál sjóðsins.
Stefnt er að afhendingu  flygildanna snemma í nóvember.

(18.10.2014)

Hlupu til styrktar sjóðnum

Nokkrar vaskar konur og karlar hlupu til styrktar sjóðnum í minningu Ástu í Reykjavíkurmaraþoninu 23. ágúst 2014 og söfnuðu áheitum gegnum hlaupastyrk. Hlaupurunum og þeim sem hétu á þá eru færðar bestu þakkir.

(25.08.2014)

Verkefni sjóðsins 2014-2015

Ástusjóði bárust í byrjun ágúst eftirfarandi tillögur að verkefnum sjóðsins 2014 – 2015:

  • Kaup á flygildum eða drónum sem opna björgunarsveitunum nýja möguleika á að leita að fólki úr lofti. Flygildi geta reynst ómetanleg hjálpartæki við leitir við erfiðar aðstæður. Yrðu afhent björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli og Flugbjörgunarsveitinni á Hellu. Tækin hafa nú verið valin í samráði við björgunarsveitirnar, pöntun er í vinnslu hjá framleiðanda/sölulaðila (okt 2014).
  • Tónleikar til styrktar Ástusjóði. Tónleikarnir verða 25. nóvember í Austubæ við Snorrabraut. Miðasala verður á midi.is, hjá Kaffifélaginu Skólavörðustíg 10 og hjá gleraugnaversluninni Sjáðu Hverfisgötu 52.
  • Tækifæriskort og jólakort. Nú þegar er boðið upp á að styrkja sjóðinn með minningarkortum. Verkefnið er í vinnslu.
  • Aðgerðir til að sporna gegn slysum í náttúrunni, umræða veturinn 2014 – 2015.
  • Málþing um mikilvæg lögfræðileg málefni veturinn 2014 – 2015.

(10.08.2014 – uppfært 21.10.2014)

Ástusjóður stofnaður

Ástusjóður verður stofnaður 25. júlí 2014 til minningar um Ástu Stefánsdóttur 35 ára lögfræðing í Reykjavík sem fannst látin í Bleiksárgljúfri í Fljótshlíð þriðjudaginn 15. júlí.  Sjóðnum  er ætlað að vinna að hugðarefnum Ástu og styrkja Landsbjörgu og björgunarsveitirnar um hinar dreifðu byggðir landsins. Hugðarefni Ástu innan lögfræðinnar voru umhverfisréttur,  refsiréttur, réttarfar og mannréttindalöggjöf. Hún hafði brennandi áhuga á jafnréttis- og menningarmálum. Gönguferðir og hollt líferni voru henni eðlislæg en hún greindist 25 ára með MS sjúkdóm sem vel tókst að meðhöndla – fyrir það var hún afar þakklát. Ásta lést af slysförum í íslenskri náttúru langt um aldur fram. Vinir hennar stofna Ástusjóð svo að áfram megi vinna að því sem var henni svo hugleikið og styrkja björgunarsveitirnar í þeirra óeigingjarna starfi. Vinir og fjölskylda Ástu vilja einnig með sjóðnum koma á framfæri ævarandi þakklæti vegna starfa björgunarsveita og lögreglu eftir hvarf hennar.

FREKARI UPPLÝSINGAR KOMA HÉR INN Á NÆSTU DÖGUM

(21.07.2014)